Sparistellið hennar ömmu

Ég er búinn að vera að fara yfir þessa kosningabaráttu í aðdraganda forsetakosninga í höfðinu á mér eftir að úrslit eru ljós og velt fyrir mér kosningaáróðri andstæðra fylkinga. Margt hefur verið látið fljúga í hita leiksins sem hefði betur verið látið ósagt eða allavega orðað öðruvísi.

Ég er nokkuð ánægður með úrslitin þó að ég muni ekki gefa það upp hér hvar ég setti krossinn, en mín sýn á forseta embættið er sú að það á ekki að vera til skrauts, við eigum ekki að sætta okkur við aðgerðarlausann spari forseta sem hefur enga skoðun og vill að öll dýrin í skóginum séu vinir.

Kannski er þetta af því að ég hef aldrei skilið hluti eins og sparistell eins og amma átti… til hvers í ósköpunum að kaupa einhverja rándýra diska til að geyma þá uppí skáp og nota nánast aldrei… ef ég kaupi mér dýra hluti þá kaupi ég þá af því að það á að nota þá, þeir duga betur, vinna betur og hafa notagildi umfram það ódýra sem í boði er.

Í mínum huga er nóg af „sparistelli“ í stjórnsýslunni, embættismenn og stöður sem viðgangast af vana og það hefur verið skortur á tiltekt í þeim málum, meira að segja af hendi núverandi stjórnvalda sem kenna sig við flórmokstur hefur slíkt viðgengist og ég fagnaði því þegar forseta embættið lifnaði við og menn fóru þar að vinna, tam við að kynna Ísland og Íslenskt atvinnulíf.

Stolt þjóðarinnar árið 2007

Þar komum við að öðrum skrítnum punkti sem Ólafur Ragnar hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir og það er stuðningur hans við útrásina. Þegar að þessu máli kemur virðast flestir vera haldnir alveg ótrúlegu val-minni því þá man bara ekki nokkur maður það að fyrir hrun voru bankarnir og útrásarvíkingarnir okkar helstu hetjur. Íslendingar voru gríðarlega stoltir af þessum fyrirtækjum og framgangi þeirra á erlendri grundu, hér var góðæri og margir töldu að hér hefði skapast önnur risavaxin tekjulind Íslendinga í viðskiptalífinu.

Ég ætla ekki að rekja það neitt frekar hér að sú bóla sprakk með hörmulegum afleiðingum og í ljós kom að sumir þeirra sem í útrás fóru höfðu ekki hreina samvisku.
Hitt er annað að meðan stolt okkar var mikið yfir þeim fyrirtækjum þá studdi þáverandi og núverandi forseti okkar, Ólafur Ragnar þá útrás sem virtist gera Íslensku atvinnulífi mjög gott og bætti lífskjör hér á landi, enginn gerði athugasemdir við það…

Núna er hins vegar rifjað upp að ÓRG studdi þessi fyrirtæki en ekki talað um það að hann styður enn við fyrirtæki sem eru að vinna að útflutningi frá Íslandi í dag, hvort sem þau eru á íslenskum markaði eða í útflutningi og er talsmaður Íslands ásamt því að vera ekki þægur gagnvart þingi heldur gagnrýninn burtséð frá því hvort hann hafi tekið réttar eða rangar ákvarðanir þá hefur hann skoðun.

Við höfum ekki efni á því í dag að vera með sparistell, fyrst við erum með dýrt „stell“ á Bessastöðum er bara eins gott að nota það því að ætla má að það eigi að endast vel og gera mikið gagn því nóg kostar það!

Gísli Kr.

Tveggja sona faðir í sambúð með stórkoslegri konu. Hóf samkeppni við Blómaval 6 ára gamall...