Sprotar: Kaupréttarsamningar

Sem sérlegur áhugamaður um sprotafyrirtæki og málefni sem snerta nýsköpun á Íslandi hef ég skrifað nokkra pistla um umhverfi þessara fyrirtækja hér á landi og nú er komið að kaupréttarsamningum.

Kaupréttarsamningar (Options Agreements) hafa verið gríðarlega mikið notaðir í startup senunni og eru víða taldir vera mikilvægt tól frumkvöðla til að laða til sín hæfileikaríkt fólk þar sem oft á tíðum er ekki verið að greiða há laun til að byrja með í þessum fyrirtækjum.

Með því að veita kaupréttarsamninga ert þú sem stofnandi/framkvæmdastjóri að gefa starfsmanni möguleika á því að eiga hlutdeild í því sem verið er að skapa og að eiga möguleika á því að vinna upp þann mun sem verður á því að vera á lægri launum með sölu á þeim hlutabréfum sem hann hefur unnið sér rétt á þegar sá tími kemur.

Kaupréttarsamningar eru mikið notaðir erlendis hjá sprotafyrirtækjum en einnig hefur notkun á þeim verið að aukast á Íslandi þar sem samkeppni um starfskrafta (tek sérstaklega eftir því í tæknigeiranum, enda starfa ég í honum) er grimm og launin tiltölulega há.

Ég hef  rekið mig á nokkrar staðreyndarvillur í umræðu um kaupréttarsamninga á Íslandi og margt við framkvæmd þeirra á Íslandi sem mikil þörf er á að laga til þess að kaupréttarsamningar geti verið tól sprotafyrirtækja til þess að laða til sín gott starfsfólk þrátt fyrir að greiða lægri laun.

Ég ákvað því að fara yfir tvær staðreyndarvillur sem ég hef rekið mig á og stinga mig alltaf þegar ég heyri þeim fleygt fram:

Staðreyndarvilla 1:
„Kaupréttarsamningar bera fjármagnstekjuskatt“

Þessa fullyrðingu hef ég rekið mig á oftar en einu sinni, en þessa fullyrðingu þarf að brjóta niður ef það á að svara henni á vitrænum nótum.

Ef þú kaupir hlutabréf samkvæmt kaupréttarsamningi þá borgar þú að sjálfsögðu ekki skatt af kaupunum, en þú leggur út fyrir hlutabréfunum á því gengi sem kveðið er á um í kaupréttarsamningi. Hins vegar er það svo að ef gengi er lægra en það sem talið er „raungengi“ í félaginu þá ber mismunurinn tekjuskatt sem reiknast við sölu hlutabréfana og það gengi sem selt er á.
T.d. þú hefur kauprétt að 1000 hlutum á genginu 1, en við virkjun kaupréttar er gengið orðið 10. lítur Ríkisskattstjóri svo á að lægra gengi en raun gengi þegar hlutirnir virkjast, séu hlunnindi og hlunnindi beri tekjuskatt samkvæmt þeim heimildum sem ég hef aflað mér.
Þannig að þessir 1000 hlutir sem ég greiði 1000 kr. fyrir bera tekjuskatt af 9000 krónunum (1000 hlutir kosta við virkjun 10.000) sem er mismunur á kaupréttargengi og „raun“ gengi óskráðs félags. Þennan tekjuskatt þarf hins vegar ekki að greiða við virkjun kaupréttarsamnings heldur túlkar Ríkisskattstjóri lögin þannig að þú greiðir tryggingagjald af mismuni kaupréttargengis og raun gengi félagsins en tekjuskatt við sölu bréfana. Tekjuskatturinn getur svo verið mismunandi eftir því hver laun þess sem hlýtur kaupréttinn eru og í hvaða skattþrepi sá aðili er að greiða tekjuskatt.

[Uppfært, sjá neðanmáls] Hvenær sem þú selur bréfin, hvort sem það er strax við virkjun og kaup á hlutum samkvæmt kauprétti eða seinna eftir að hlututinn hefur hvort sem er hækkað eða lækkað, þá greiðir þú tekjuskatt af mismuni gengis sem kveðið er á um í kaupréttarsamningi og söluverðs.

Sem sagt, hagnaður af hlutum sem þú eignast með kaupréttarsamningi bera alltaf tekjuskatt hvenær sem þú selur samkvæmt Ríkisskattstjóra.

Ég hef hins vegar ekki rekið mig á neinar útgefnar reglur um það hvernig á að fá út „raungengi“ óskráðra félaga aðrar en að fá óháða matsmenn til að meta þau eða miða við gengi síðustu viðskipta sem geta verið mis nákvæm viðmið.

Bottom line:

Þegar þú þiggur lægri laun og kaupréttarsamning, væntanlega af því að þú hefur trú á því verkefni sem verið er að vinna í, ertu þá ekki í raun að fjárfesta í félaginu?

Er það rökrétt að þú sem einstaklingur borgir tekjuskatt af þinni fjárfestingu en ef sambærilegur gjörningur er framkvæmdur af fyrirtæki þá er um fjármagnstekjuskatt að ræða?

Mín skoðun er; nei, það er taktlaust og er eitt af þeim atriðum sem þarf að laga þegar það kemur að skattlagningu vegna kaupréttarsamninga í sprotafyrirtækjum.

Staðreyndarvilla 2:
„Þú þarft ekki að leggja út fyrir kaupréttarsamningnum“

Ég hef stöku sinnum heyrt þessu fleygt fram en þetta er rangt og getur verið beinlínis ólöglegt.

Þessi staðreyndarvilla getur verið að hálfu sönn en mun aldrei þýða að ekki þurfi að leggja neinn pening út þegar kaupréttarsamningur virkjast.

Ef kaupréttarsamningurinn kveður á um að það skuli engin greiðsla koma fyrir hlutina sem aðili fær samkvæmt samningi þá eru allar líkur á því að annað af þessu tvennu eigi við:

  • Greiðsla fyrir hlutina verði metin sem vinnuframlag (og staðfest sem slík af endurskoðanda félagsins) en í því tilfelli greiðir þú tekjuskatt af allri upphæðinni sem þú færð hlutabréfin á (hlutafé x gengi) en síðan fjármagnstekjuskatt ef þú selur hlutina með hagnaði síðar.
  • Kaupréttarsamningurinn kveður á um að félagið geti greitt þér mismun á gengi samkvæmt kaupréttarsamningi og gengi hlutana við virkjun kaupréttarsamnings, en þá greiðist sú upphæð út með launum í formi bónus eða kaupauka og tekjuskattur er greiddur af þeirri upphæð. Í því tilfelli er ekki um neina úthlutun á hlutum í félaginu að ræða og því ekki um eiginlegan kauprétt að ræða heldur bónusgreiðslu sem miðast við gengi félagsins á hverjum tíma fyrir sig.
Bottom line:

Ég held að það sé nokkuð ljóst að ég er hér með að kalla eftir breytingum stjórnvalda á reglum sem snerta kaupréttarsamninga, ef ekki heilt yfir línuna þá allavega fyrir viðurkennd sprotafyrirtæki.

Nú er staðan búin að batna hér á landi þónokkuð síðastliðin ár en samt heyrir maður sérfræðinga ráðleggja það að ef þú ætlar að stofna nýtt fyrirtæki, gerðu það þá utan landsteinana.

Eins og við eigum mikla möguleika hér á landi með okkar flottu fyrirtæki, þá höfum við ekki efni á því að hafa umhverfi fyrir sprotafyrirtæki sem er eftirbátur annara landa, við þurfum að gera betur og það mun svo sannarlega skila sér í kassann, það höfum við séð af þeim fyrirtækjum sem við höfum hér á landi og hafa skilað þjóðinni tekjum svo um munar þegar þau vaxa.

Gott að vita:
Skilyrði þess að heimild sé til þess að hagnaður af kaupréttarsamningum skattleggist sem fjármagnstekjuskattur eru samkvæmt 9. og 10. grein laga um tekjuskatt eftirfarandi:

  1. Kaupréttur að hlutabréfum eða hlutum í viðkomandi félagi hafi náð til allra starfsmanna. Hlutabréfum og hlutum starfsmanna skulu fylgja sömu réttindi og öðrum hlutabréfum eða hlutum félags.
  2. Starfsmaður hafi verið í föstu starfi hjá félaginu eða í öðru félagi í sömu félagasamstæðu, sbr. lög um ársreikninga.
  3. Að lágmarki 12 mánuðir þurfi að líða frá gerð samnings um kauprétt þar til hann er nýttur.
  4. Kaupverð sé eigi lægra en vegið meðalverð í viðskiptum með hluti/hlutabréf félags tíu heila viðskiptadaga fyrir samningsdag ef slík viðskipti hafa verið skráð í kauphöll. Ef slík skráning hefur ekki átt sér stað skal miða við gangverð eins og það er skilgreint í 9. gr.
  5. Starfsmaður eigi hlutabréfin eða hlutina í tvö ár eftir að kaupréttur er nýttur.
  6. Samningur um kauprétt sé ekki framseljanlegur.
  7. Hámark kaupa hvers starfsmanns sé samanlagt 600.000 kr. á ári miðað við kaupverð samkvæmt samningi.
  8. Félag sem hefur í hyggju að veita starfsmönnum kauprétt hafi sent ríkisskattstjóra fyrir fram til staðfestingar áætlun um kauprétt starfsmanna ásamt upplýsingum um framangreind atriði í því formi sem hann ákveður.

Uppfært:

Vegna ábendingar um túlkun Ríkisskattstjóra á tekjuskattsfærslu á hlutabréfum sem aðili eignast við virkjun kaupréttarsamnings þá breytti ég eftirfarandi setningu:

„Ef þú síðan selur hlutabréfin eftir að þú hefur greitt tekjuskatt af mismuni kaupréttargengis og „raun“ gengis með hagnaði, annaðhvort strax eða síðar, þá ber sá hagnaður fjármagnstekjuskatt.“

Þetta er ekki rétt, heldur skal greiða tryggingagjald við virkjun kaupréttar og síðan tekjuskatt af heildar upphæð sölu á hlutabréfum sem verða til við virkjun kaupréttar.

 

Gísli Kr.

Tveggja sona faðir í sambúð með stórkoslegri konu. Hóf samkeppni við Blómaval 6 ára gamall...