Skortur á nýsköpun í málefnum nýsköpunarfyrirtækja?

Viðhorf til þeirra sem standa að nýsköpun hefur breyst til batnaðar frá þeim tíma sem ég var að taka mín fyrstu skref í nýsköpun.

Eftir október 2008 virðast Íslendingar loksins hafa skilið mikilvægi nýsköpunar.

Viðhorf til frumkvöðla og sprotafyrirtækja hefur breyst en hins vegar hefurstuðningskerfið ekki tekið eins miklum framförum og eigum við raunar ennþá langt í land hvað það varðar.

Komið er að því að taka til hendi í þessum málaflokki, við erum í samkeppni við aðrar þjóðir um sprotafyrirtækin sem í mörgum tilfellum eru ekki á nokkurn hátt bundin því að starfa á Íslandi (fyrir utan gjaldeyrishöftin).

Það er vel gerlegt að stórefla umhverfi og vaxtamöguleika sprotafyrirtækja með því að veita fjárfestum skattaafslátt er þeir fjárfesta í óskráðum sprotafyrirtækjum. Hvert er markmiðið? Jú, hvatning til fjárfestinga í litlum fyrirtækjum, að auka verðmætasköpun og fjölga störfum. Hvert fara þessir „skattfrjálsu peningar“? Að megninu til í launakostnað sem að stórum hluta fer í skatt hér á landi og þaðan í ýmsan heimilisrekstur o.s.frv. Sem sagt “skattfrjálsa” fjármagnið kemur samfélaginu til góða.

Annað dæmi má taka sem myndi efla íslenskt nýsköpunarumhverfi og auka flóru sérfræðiþekkingar á Íslandi. Í Montreal í Kanada er sérfræðingum sem flytja til landsins í hugbúnaðargerð veittur skattaafsláttur, ef þeir flytjaþangað og hefja störf þar þá greiða þeir ekki tekjuskatt fyrstu árin. Hvert er markmiðið? Markmiðið er að létta fyrirtækjunum ráðningar og auka sérfræðiþekkingu á svæðinu sem þá laðar að sér enn fleiri fyrirtæki sem greiða svo þar skatta. Það myndi efla íslenskt nýsköpunarumhverfi og auka sérfræðiþekkingu hér tækjum við þá til fyrirmyndar.

Ég kalla eftir nýsköpun þegar kemur að málefnum sprotafyrirtækja og hvet þá sem sitja í brúnni að hugsa út fyrir kassann og vera gagnrýnir á þá leið sem við erum á.

Gísli KR.
Höfundur situr í stjórn Samtaka Sprotafyrirtækja og er Framkvæmdastjóri Sölu og Markaðsviðs Greenqloud ehf.

Þessi pistill birtist í Markaðnum í Fréttablaðinu þann 18. nóvember 2015 og má sjá hér.

Gísli Kr.

Tveggja sona faðir í sambúð með stórkoslegri konu. Hóf samkeppni við Blómaval 6 ára gamall...