Ef þú klikkar ertu aumingi!

Menn sem stofna fyrirtæki í Íslensku samfélagi, með nýjar hugmyndir eða gamlar, storma af stað út í óvissuna og fá fólk með sér í lið til þess að framkvæma og byggja upp fyrirtæki eiga alltaf yfir höfði sér hinn íslenska dóm yfir þeim sem mistekst.

Það kemur mér sífellt á óvart og ég get ekki vanist því að það virðist vera eitthvað í þjóðarsál okkar sem vill dæma þá sem mistekst í fyrirtækjarekstri mjög fljótt, án þess að skoða hvað gerðist, menn eru bara þjófar eða aumingjar fyrir það að hafa reynt og mistekist.

Þessi þankagangur hefur verið hálf skrítinn eftir hrunið, menn hygla sprotafyrirtækjum, en þeir frumkvöðlar sem stóðu í bankarekstri eða áttu stór fyrirtæki sem féllu í ósköpunum sem dundu hér yfir þjóðina árið 2008 eru taldir algjörir skíthælar og eru sífellt á milli tannana á fólki fyrir óheiðarleika og að það eigi að dæma þá eða þaðan af verra. Nú vil ég alls ekki að það miskiljist að ég geri mér fulla grein fyrir því að hér voru nokkrir menn sem ekki voru heiðarlegir og gerðu hluti sem leiddu okkur að þeirri sorglegu niðurstöðu sem hrunið var, en ég fæ það ekki af mér að trúa því að allir hafi verið blindaðir af græðgi. Ég trúi því að hér hafi verið menn sem stunduðu viðskipti í góðri trú, hér var bjagað umhverfi á þessum árum en það er þumalputtaregla að yfirleitt er fólk heiðarlegt, vissulega eru skemmd epli inn á milli og í sumum tilfellum taka þau alla niður með sér.

Ég man oft eftir því sem var haft eftir Finni Ingólfsyni í einhverju blaðaviðtali fyrir nokkru sem mér fannst vera alveg rétt, “ef þú reynir og mistekst ertu aumingi, ef þú græðir ertu þjófur” Þetta er mjög lýsandi fyrir megnið af þeirri umræðu sem á sér stað í dag í þjóðfélaginu, allir sem græddu voru þjófar og þeir sem féllu aumingjar.

Það þarf sterk bein til að „reyna“ þegar hugarfarið er svona í samfélaginu 😉

 

Gísli Kr.

Tveggja sona faðir í sambúð með stórkoslegri konu. Hóf samkeppni við Blómaval 6 ára gamall...

2 Comments

  1. Það var Davíð Scheving Thorsteinsson sem átti þessa lýsingu á íslensku þjóðarsálinni; Ef þú græðir ertu þjófur, ef þú tapar ertu aumingi.

    1. Það er frábær lýsing á þankagangi þjóðarsálarinnar, vonandi er þetta að breytast.

Comments are closed.